8.5.2008 | 11:39
Mætt í vinnuna
er búin að vera á námskeiði síðustu 3 daga, það var mjög gaman og líka gott að stíga aðeins út úr þessu venjulega og breyta aðeins til. En núna er gott að vera komin í vinnuna aftur:)
Það var svakalega gaman á reunioniu okkar sem var 19. apríl og ekkert smá gaman að hitta alla. Mætingin var mjög góð og meira að segja komu 3 kennarar að hitta okkur. Þetta er frábær árgangur og allir voru glaðir og kátir. Kvöldið leið bara allt of hratt eins og oft vill verða þegar það er gaman:)
Það er komin grafa og vörubíll heim til mín og stendur til að byrja í kvöld að grafa upp garðinn hjá mér, það á að setja drenlögn og búa til eitt bílastæði í viðbót og gera pall Eins gott að það viðri vel í sumar svo hægt sé að sóla sig þar á daginn og drekka hvítvín þar á kvöldin;) Helst langar mig í heitan pott núna líka en ætli við bíðum ekki með það allavega meðan kreppan gengur yfir:)
Þegar við keyptum húsið í fyrra þá tókum við erlent íbúðarlán því að við töldum að það væri besti kosturinn. Reyndar teljum við það enn. En greiðslubyrðin af láninu hefur hækkað um 40-50% á mánuði. Án gríns. Svo það er kreppa hjá okkur og eins gott að eitthvað gerist í þessum efnahagsmálum þjóðarinnar á næstu mánuðum.
Pétur Blöndal reyndar segir að Íslendingar eigi að brosa út í bæði núna. Hann vill virkja meir og segir að það sé lítill mengunarvaldur og að Jökla hafi hvort sem er alltaf verið til vandræða. Hann er algjör dásemd maðurinn.
Sunna Líf er í prófum þessa dagana og vakir allar nætur að læra:) Ég man þegar ég var í skóla þá var ég líka alltaf að læra á nóttinni, skil það ekki núna En vonandi verður þessi næturlærdómur ekki til þess að hún sofni í einhverju prófinu:) Hún ætlar að taka 3 fög í sumarskóla og ég fékk algjört sjokk þegar ég sá hvað það kostar. Rándýrt, en samt ekki eins dýrt og tannréttingar:)
Samkvæmt Útivistarreglunum mega börn á aldrinum 13-16 ára vera úti til kl. 12 eftir 1. maí. Við höfum staðið í smá stríði við miðjuna út af þessu þar sem okkur finnst að 13 ára barn hafi ekkert að gera úti til kl. 12 á kvöldin. Hún er ekki alveg sátt við okkur og segir að það megi auðvitað ALLIR vera úti til 12 nema hún:) Við ráðum að sjálfsögðu hvað barnið okkar er lengi úti en henni finnst við ósanngjörn og ekki vera að fara eftir reglunum. En það hefur virkað vel því að hún hefur orðið svo fúl út í okkur sum kvöldin að hún hefur bara sleppt því að fara út
Ég er búin að kjósa hvaða hús er flottast á Hæðinni og hlakka til að fylgjast með úrslitunum í kvöld. Að sjálfsögðu kaus ég Hafnfirðingana og nágranna mína Begga og Pacas en ekki af því að þeir eru það heldur er húsið hjá þeim bara LANGflottast. Kjósið þá í síma 900-2019.
Ég er með vor í hjarta, nóg að gera um helgina í garðvinnunni og kannski maður opni eins og eina hvítvín (á nokkuð margar því ég vann léttvínspottinn í vinnunni á föstudaginn:)) og dreypi á meðan Viðar grefur upp garðinn. Að sjálfsögðu hjálpa ég til eins og ég get en sennilega lendir þetta mest á honum. Ég verð svo í að gróðursetja og dúllast þegar búið er að gera allt klárt
Chao
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.