14.10.2008 | 10:30
TEKINN
Já höfum við ekki öll verið tekinn? Bankinn minn sem grátbað mig að taka lán og helst mikið af þeim og með háum vöxtum. Hann sendi mér kreditkort óumbeðinn heim með mörg hundruð þúsund króna heimildum og hækkaði yfirdráttinn minn bara um leið og ég hugsaði það og ég þurfti ekki einu sinni að fara í bankann bara senda email. Ef að ég var svo í vandræðum með að borga af þessu öllu þá lánaði hann mér bara meir til að það væri nú hægt að halda kreditkortinu opnu. Hann er Farinn bankinn minn !!. Farinn hvert?? tja ég veit það ekki en það stóð allavega í blöðunum að hann væri farinn. Ég heiti Anna og ég var tekinn. Punk´d. Nú bara vona ég að það sé ekki búið að reka þjónustufulltrúann minn svo ég geti kannski samið eitthvað um að greiða af þessu öllu. Eða á bankinn mig eða ég hann?? Fyrir tveimur vikum hefði ég svarað því þannig að bankinn ætti mig en núna? ég á bankann er það ekki? með ykkur öllum. Það var samt ekkert á planinu hjá mér að eignast banka, allavega ekki núna meðan lausafjárkreppan er viðvarandi hjá mér og gjaldeyrisforðinn minn engin og íslenska krónan í mestu vandræðum. Það hefði verið á allt öðrum tímapunkti sem ég hefði ætlað mér að eignast banka.
Ég er samt ekki í sjokki og ekki mjög reið allavega ekki ennþá, og ég mun ekki þurfa á áfallahjálp að halda út af þessu eða hringja í hjálparsíma Rauða krossins eða fá einhverja sálgæslu. En ég skil að margir þurfi á því að halda. Ég er svo lánsöm að það sem að ég átti í bankanum mínum voru bara skuldir, ég var ekki orðin hluthafi og átti ekkert inni í sjóðum og ég veit að skuldirnar mína hverfa ekkert svo ég er róleg.
Á föstudagskvöldið var smá gleðskapur heima hjá mér og þá meina ég smá en hann endaði með flugeldasýningu þegar það kveiknaði í gashitaranum úti í gróðurhúsi. Slökkviliðið kom og bjargaði því en ég aftur á móti er undir pressu núna að enda öll partý svona flott, veit ekki hvort ég stend undir því. En það er allavega alltaf fjör í Köldukinninni
Annars var ég í foreldraviðtali í morgun hjá Örnu og allt krepputal og peningaáhyggjur urðu að engu þegar ég sveif út úr skólanum eftir viðtalið við kennara þessarar dásamlegu stúlku.
Lifið heil og passið hvort annað vel.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.