Ár og aldir...

Mér finnst eins og það séu ár og aldir síðan ég skrifaði síðustu færslu þegar það voru 23 dagar í sumarfríið. Núna eru margir dagar síðan sumarfríinu lauk og ég byrjaði að vinna aftur. Við höfðum það mjög gott í fríinu og náðum að klára að pakka, mála, flytja og þrífa gömlu íbúðina og skila henni af okkur. Okkur líður dásamlega í nýja (gamla) húsinu og í sumar þá leið mér eins og ég væri í sveit í borg þar sem ég sat úti í allri óræktinni í garðinum mínum. Svo þó að við höfum ekki farið lengra en útí garð í fríinu þá fannst okkur við vera út í sveit að elta gamla geit:) Reyndar þurfti húsbóndinn og unglingurinn að elta kanínuna um allan garð einn dag í síðustu viku þar sem hún slapp út úr gróðurhúsinu en það er nú önnur sagaGrin 

Miðjan eyddi meirihluta sumarsins í sveitunum tveimur en skilaði sér heim um síðustu helgi og mætti í skólann á mánudaginn 3 dögum of seint.

Unglingurinn sem er nú reyndar alveg að verða fullorðin var heilan mánuð á Spáni og hafði það mjög gott. Það er ekki laust við að ég öfundi hana pínu þegar hún slær um sig með spænskum frösum eftir heimkomuna. Mig hefur alltaf langað til að tala Spænsku og ég er oft að reyna að leggja á minnið svona algeng orð en gengur misvel. Hún mætti líka 3 dögum of seint í skólann en það kom ekki að sök. Það er ekki enn búið að gera herbergið hennar íbúðarhæft svo að hún hefur dvalið í Keflavík meira en heima hjá sér eftir að hún kom frá Spáni. Hún er eitthvað orðin leið á þessu herbergjaleysi og miðjan orðin þreytt á ferðatöskunni hennar inni í sínu herbergi svo ég hugsa að við foreldrarnir neyðumst til að byrja á herberginu hennar um helgina.

Þegar við tókum við húsinu okkar litla sæta þá kom í ljós að rafmagnið er ekki alveg í lagi. Nú erum við búin að búa þar næstum í mánuð og ekki ennþá fengið leyst úr þessu. Sá sem við keyptum húsið af á að sjá um að koma þessu í lag en ekki hefur það alveg gengið enn. Við erum búin að komast að því að kaupendur hafa mun minni rétt en seljendur í svona málum og það virðist vera að það skipti engu máli þó að við séum flutt inn í húsið. Það er t.d. ekki hægt að kveikja eða slökkva ljós á öðru baðherberginu sem að gerir það að verkum að við erum ekki farin að nota annað baðherbergið en hann getur hummað þetta fram af sér endalust virðist vera. Við pollrólega fólkið erum alveg við það að hætta að vera pollróleg og viljum fara að fá einhver svör en það virðist sem við þurfum að bíða lengur eftir þeimDevil Þetta hefur vakið upp margar spurningar hjá okkur um fasteigna kaup og sölu og heilindi fasteignasala.

En það breytir því ekki að við erum alsæl í litla húsinu okkar og prinsinn sagði við mig þegar við vorum búin að búa þar í tvo daga " mamma við skulum ekki flytja aftur á gamla staðinn" sem segir held ég allt sem segja þarf um það hvernig honum líður í húsinu.

Okkur fjölgaði líka í fjölskyldunni við flutninginn þar sem að Miðjan ættleyddi kettling sem bjó í húsinu fyrir. Kapitóla er nafnið sem kisan fékk og átti Miðjan að sjálfsögðu að hugsa um köttinn sjálf en þar sem að hún var mjög svo upptekin við sveitastörf og hestamennsku þá kom það í minn hlut að hugsa um Kapitólu svona til að byrja með og það varð til þess að tólan heldur að ég sé mamma hennar ( en ég er náttla bara amma hennar) og hún vill hvergi annars staðar vera en hjá mér og hún meira að segja sefur uppí rúmi hjá mér og ég er ekki einu sinni fyrir ketti. Miðjan er mikið búin að reyna að hæna köttinn að sér eftir að hún kom heim en Tólan vill bara migShocking

Lífið gengur annars bara sinn vanagang sem er vinna borða og sofa en reyndar er mikið framundan allskyns ferðir og uppákomurTounge og það styttist í sumarfríið hjá húsbóndanum og þá ætlum við að skella okkur í sólina. Það eru nákvæmlega 37 dagar í það í dag. Ég hlakka bara til.

 

 Chao. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband